Slippfélagið í 120 ár
Upphafið – Fyrsta dráttarbrautin á Íslandi
Saga sjávarútvegs á Íslandi er eins og gefur að skilja jafn gömul landnáminu. Lengst af komu skip hingað frá Evrópu og voru í eigu þeirra er þar bjuggu. Eina útgerðin sem stunduð var í landinu byggðist í smábátum, sem gerðir voru út til fiskveiða í mjög smáum stíl, enda landbúnaður aðal atvinnugreinin. Auk þess var ýmislegt gert til að hamla á móti útgerð, þrátt fyrir verulega eftirspurn og oft hátt verðlag á sjávarfangi. Þar kom þó að útgerð óx fiskur um hrygg og upp úr miðri nítjándu öldinni var kominn vottur að þilskipaútgerð sem á stuttum tíma stækkaði og blómgaðist. Þessu fylgdu ný vinnubrögð þegar kom að viðhaldi á þessum skipum. Aðstaða til slíks var engin í landinu og miklum annmörkum háð að koma slíku í verk svo vel væri. Á nokkrum stöðum höfðu menn reynt að byggja frumstæðar dráttarbrautir sem eitthvað léttu undir, en dugðu fráleitt. Í nágrenni Reykjavíkur, á Vestfjörðum og víðar hafði verið komið á laggirnar einskonar dráttarbrautum sem dregnar voru af handafli. Í nágrenni höfuðstaðarins á þeim tíma voru nokkrir staðir, sem notaðir voru til stórviðgerða, svo sem á sandinum vestan við Klepp, þar sem nú er Sundahöfnin, í Eiðsvíkinni innan við Gufunes og á Seilunni við Bessastaði, en þar og í Eiðsvík voru vetrarlægi þilskipanna. Minni háttar viðgerðir fóru fram á sandinum, þar sem nú er Tryggvagata. Þá féll sjór að, þar sem í dag standa ýmis þekkt hús s.s. Eimskipafélagshúsið, Gaukur á Stöng, Kaffi Reykjavík og Naustið, sem á sínum tíma voru reist á fjörukambinum.
Fyrstur til að vekja máls á byggingu dráttarbrautar í Reykjavík var athafnamaðurinn og bankastjórinn Tryggvi Gunnarsson, í grein í almanaki Þjóðvinafélagsins, sem út kom í árslok 1901. Þar vísaði greinarhöfundur til Færeyinga, sem sex árum áður höfðu komið sér upp dráttarbraut í Trangisvogi á Suðurey. Það að minnast á Færeyinga voru ákveðin klókindi hjá Tryggva, því með því að segja þá vera komna lengra, voru verulega meiri líkindi fyrir því að hér fengjust menn til athafna. Fram að þessu höfðu útgerðarmenn þurft að sjá sjálfir um allar viðgerðir og þar sem Tryggvi var formaður félags þeirra tókst honum að brýna menn til átaka í Slippmálinu.
Stofnfundur Slippfélagsins við Faxaflóa var síðan haldinn í Reykjavik 15. mars 1902. Nafninu var breytt í núverandi nafn strax eftir fyrstu fundargerðina og er Slippfélagið í Reykjavík hf. Næstelsta starfandi hlutafélag landsins. Aðeins ísfélag Vestmannaeyja er eldra, stofnað 1901.
Þegar kom að því að velja brautinni stað komu nokkrir til greina. Norskur fagmaður sem fenginn hafði verið til ráðgjafar taldi Rauðarárvíkina, við endann á núverandi Snorrabraut, besta staðinn, „annars mætti eins setja hana upp i Hliðarhúsasandi“. Þar var svo slippurinn byggður og þar er hann enn í dag. Um aldamótin 1900 hét Vesturgata Hlíðarhúsastígur eftir Hliðarhúsum, er stóðu þar sem nú er hornið á Vesturgötu og Norðurstíg.
Fyrirtækið var eitt fyrst íslenskra fyrirtækja til að setja sér sérstaka stefnu í umhverfismálum. Í daglegum rekstri er reynt eftir fremsta megni að uppfylla stefnu félagsins í umhverfismálum. Það er meðal annars gert með að skipta út hættulegum efnasamböndum og síðast en ekki síst með ráðgjöf til viðskiptavinar. Dæmi um það sem hefur áunnist á undanförnum árum er stóraukin notkun umhverfisvænna vatnsþynnanlegra málningarefna. Grænt bókhald er síðan notað sérstaklega til að meta hvernig til tekst hverju sinni.