Hero image

Saga Slippfélagsins

Slippfélagið í 120 ár

Upphafið – Fyrsta dráttarbrautin á Íslandi

Saga sjávarútvegs á Íslandi er eins og gefur að skilja jafn gömul landnáminu. Lengst af komu skip hingað frá Evrópu og voru í eigu þeirra er þar bjuggu. Eina útgerðin sem stunduð var í landinu byggðist í smábátum, sem gerðir voru út til fiskveiða í mjög smáum stíl, enda landbúnaður aðal atvinnugreinin. Auk þess var ýmislegt gert til að hamla á móti útgerð, þrátt fyrir verulega eftirspurn og oft hátt verðlag á sjávarfangi. Þar kom þó að útgerð óx fiskur um hrygg og upp úr miðri nítjándu öldinni var kominn vottur að þilskipaútgerð sem á stuttum tíma stækkaði og blómgaðist. Þessu fylgdu ný vinnubrögð þegar kom að viðhaldi á þessum skipum. Aðstaða til slíks var engin í landinu og miklum annmörkum háð að koma slíku í verk svo vel væri. Á nokkrum stöðum höfðu menn reynt að byggja frumstæðar dráttarbrautir sem eitthvað léttu undir, en dugðu fráleitt. Í nágrenni Reykjavíkur, á Vestfjörðum og víðar hafði verið komið á laggirnar einskonar dráttarbrautum sem dregnar voru af handafli. Í nágrenni höfuðstaðarins á þeim tíma voru nokkrir staðir, sem notaðir voru til stórviðgerða, svo sem á sandinum vestan við Klepp, þar sem nú er Sundahöfnin, í Eiðsvíkinni innan við Gufunes og á Seilunni við Bessastaði, en þar og í Eiðsvík voru vetrarlægi þilskipanna. Minni háttar viðgerðir fóru fram á sandinum, þar sem nú er Tryggvagata. Þá féll sjór að, þar sem í dag standa ýmis þekkt hús s.s. Eimskipafélagshúsið, Gaukur á Stöng, Kaffi Reykjavík og Naustið, sem á sínum tíma voru reist á fjörukambinum.

Fyrstur til að vekja máls á byggingu dráttarbrautar í Reykjavík var athafnamaðurinn og bankastjórinn Tryggvi Gunnarsson, í grein í almanaki Þjóðvinafélagsins, sem út kom í árslok 1901. Þar vísaði greinarhöfundur til Færeyinga, sem sex árum áður höfðu komið sér upp dráttarbraut í Trangisvogi á Suðurey. Það að minnast á Færeyinga voru ákveðin klókindi hjá Tryggva, því með því að segja þá vera komna lengra, voru verulega meiri líkindi fyrir því að hér fengjust menn til athafna. Fram að þessu höfðu útgerðarmenn þurft að sjá sjálfir um allar viðgerðir og þar sem Tryggvi var formaður félags þeirra tókst honum að brýna menn til átaka í Slippmálinu.

Stofnfundur Slippfélagsins við Faxaflóa var síðan haldinn í Reykjavik 15. mars 1902. Nafninu var breytt í núverandi nafn strax eftir fyrstu fundargerðina og er Slippfélagið í Reykjavík hf. Næstelsta starfandi hlutafélag landsins. Aðeins ísfélag Vestmannaeyja er eldra, stofnað 1901.

Þegar kom að því að velja brautinni stað komu nokkrir til greina. Norskur fagmaður sem fenginn hafði verið til ráðgjafar taldi Rauðarárvíkina, við endann á núverandi Snorrabraut, besta staðinn, „annars mætti eins setja hana upp i Hliðarhúsasandi“. Þar var svo slippurinn byggður og þar er hann enn í dag. Um aldamótin 1900 hét Vesturgata Hlíðarhúsastígur eftir Hliðarhúsum, er stóðu þar sem nú er hornið á Vesturgötu og Norðurstíg.

Fyrirtækið var eitt fyrst íslenskra fyrirtækja til að setja sér sérstaka stefnu í umhverfismálum. Í daglegum rekstri er reynt eftir fremsta megni að uppfylla stefnu félagsins í umhverfismálum. Það er meðal annars gert með að skipta út hættulegum efnasamböndum og síðast en ekki síst með ráðgjöf til viðskiptavinar. Dæmi um það sem hefur áunnist á undanförnum árum er stóraukin notkun umhverfisvænna vatnsþynnanlegra málningarefna. Grænt bókhald er síðan notað sérstaklega til að meta hvernig til tekst hverju sinni.

Blog image

Uppbyggingin

Fyrsti slippstjórinn var norskur skipasmiður, Jens Hammeraas og sá um uppsetningu á fyrsta athafnasvæðinu en hætti fljótlega eftir að hafa komið því upp, og 26. mars 1903 var annar Norðmaður, Othar Ellingsen, ráðinn sem slippstjóri. Var það mikið lán fyrir hið nýstofnaða fyrirtæki, því þar fór sannkallaður athafna og eljumaður, þrautreyndur skipasmíðameistari úr norskum skipasmíðaiðnaði. Í upphafi var einungis aðstaða til að taka smærri skip upp á sliskjusleða, sem í raun var örlitil breyting frá fyrri aðstöðu, en 1904 hófst Ellingsen handa við að koma fyrstu brautinni fyrir og þá var komin aðstaða, sem minnir á núverandi mynd. Spilið var knúið af gufukatli. Í framhaldi af því var komið fyrir hliðarfærslubraut. Þessi aðstaða var notuð til ársins 1932.

Othar Ellingsen lét af störfum árið 1916 og stofnaði veiðarfæraverslunina 0. Ellingsen, sem allflestir landsmenn kannast við. Það kann að hafa ráðið einhverju, að Ellingsen hafði hug á að hefja byggingu vélbáta, en virðist ekki hafa haft nema mjög takmarkaðan stuðning annarra til þess. Í hans stað tók við stjórninni Daníel Þorsteinsson skipasmiður, sem hafði starfað hjá fyrirtækinu nánast frá upphafi.

Á árunum upp úr fyrri heimsstyrjöldinni hafði togaraútgerð aukist mjög, auk þess sem Íslendingar áttu nú millilandaskip. Þessum breyttu tímum í útgerðarsögunni fylgdi mikil breyting á iðnsögunni, en á árunum milli 1920 og 1930 hafði engin iðngrein vaxið jafn hratt og járniðnaðurinn, eða um 180% á einum áratug. Og þessi þróun hélt áfram á árunum milli 1930 og 1940 en þá varð nær 90% aukning í greininni. Daniel beitti sér fyrir að útvega fullkomnari verkfæri til trésmíðavinnu enda viðgerðir á tréskipum mestur hluti verkefnalistans og alla tíð, einkanlega fyrstu árin, vann fjölmennur hópur skipa- og trésmiða hjá Slippfélaginu. Fyrirtækið var um árabil einn stærsti timbursali landsins. Einn kafli í sögu fyrirtækisins er þáttur verslunarinnar. Strax á fyrstu árunum var rekin smásöluverslun með vörur tengdar skipaviðgerðum og frá árinu 1906 má kalla það alvöru rekstur, sem með tímanum jókst og dafnaði. Í byrjun fimmta áratugarins var verslunin flutt í það húsnæði, er hún hefur verið í síðan. sem hefðbundinn byggingavöruverslun.

Blog image

Sókn og vörn

Árið 1930 var mikið umbrotaár. Eftir tímabil sem einkenndist af fjármagnsskorti, úrræðaleysi og óskýrri framtíðarsýn stjórnarinnar, blasti við gjaldþrot. Þá komu til sögunnar nýir hluthafar og með auknu hlutafé urðu eigendaskipti á fyrirtækinu. Fulltrúar Vélsmiðjunnar Hamars skipuðu nú nýja stjórn Slippfélagsins. Aðalhvatamenn að þessum breytingum voru þeir Benedikt Gröndal og Hjalti Jónsson (Eldeyjar Hjalti). Þeir félagar áttu síðar eftir að setjast í stjórn fyrirtækisins. Hamarsmenn höfðu frá árinu 1922 lagt að Slippfélagsmönnum að sameina fyrirtækin en ekki orðið ágengt, fyrr en þarna var komið. Þeir höfðu stórhuga hugmyndir um framtíð Slippsins, ekki síst í krafti járniðnaðarmanna. Við þessar breytingar hætti Daníel Þorsteinsson slippstjóri og hóf eigin starfsemi á svæði vestar i fjörunni og þar er Danielsslippurinn ennþá. Árið 1932 tók ungur verkfræðingur, Sigurður Jónsson, við forstjóra taumunum. í kjölfarið urðu mikil umskipti á vélakosti fyrirtækisins. Byggð var dráttarbraut fyrir 600 tonn og ári síðar önnur sem tók 800 tonn, en með tilkomu hennar var hægt að taka upp öll fiskiskip sem skráð voru á Íslandi á þeim tíma. Auk alls þessa hófust byggingaframkvæmdir á horni Mýrargötu og Ægisgötu um miðjan fjórða áratuginn. Var þeim að mestu lokið 1942, þó að lokahnykkurinn væri ekki tekinn fyrr en 1960.

Í 36 ára forstjóratíð Sigurðar Jónssonar tók fyrirtækið gífurlegum breytingum. Slippfélagið varð eitt af stærstu fyrirtækjum landsins, með nær tvö hundruð starfsmenn þegar flest var, enda stjórnin og forstjórinn mjög samstíga. Í lok fjórða áratugarins voru gerðar áætlanir um stækkun brautanna. Ekki varð úr framkvæmdum fyrir stríð, en strax að því loknu var tekinn upp þráðurinn að nýju. Árið 1948 var tekin í notkun 1500 tonna braut, með hliðarfærslum fyrir þrjú 900 tonna skip. Til viðmiðunar var horft til nýsköpunartogaranna er nú streymdu heim, til nýfrjálsrar þjóðar sem horfði fram á veginn, full djörfungar og trúar á sjálfa sig. Síðast kaflinn í sögu brautanna var svo skráður árið 1954, þegar byggð var sú 2500 tonna braut, sem enn er í notkun.

Árið 1951 urðu tímamót í Slippfélaginu, þegar undirritaður var samstarfssamningur milli Hempels Marine Paint i Danmörku og Slippfélagsins í Reykjavik um framleiðslu á Hempels skipamálningu. Samstarf þessara fyrirtækja hefur frá upphafi verið eins og best verður á kosið, enda til þess stofnað af heilindum og trausti.

Eftir að fyrirtækið hafði náð þeirri stærð, sem varð á árunum eftir miðja síðustu öld má segja að hefðbundin starfsemi þess hafi verið á heldur lygnari sjó. Fjárfestingar tóku að skila sér og ekki varð um neinar stórframkvæmdir að ræða.

Breyttar aðstæður – Ný sjónarmið

Þegar Sigurður Jónsson lét af störfum 1968 eftir 37 ár, sem einkenndust af framkvæmdum og breytingum, settust við stjórnvölinn sonur hans Jón Hannes, sem tæknilegur framkvæmdastjóri, og Þórarinn Sveinsson, er unnið hafði hjá fyrirtækinu um árabil. Hafði Þórarinn verið hægri hönd Sigurðar síðustu árin og haft yfirumsjón með fjármálum fyrirtækisins. Það voru ólíkar aðstæður, sem þeir félagar stóðu frammi fyrir, miðað við forvera þeirra. Sigurður Jónsson hafði tekið við fyrirtækinu í miðri heimskreppu, stýrt því fram hjá boðum hennar og síðan í gegnum vöruskort stríðsáranna. Hann hafði barist við vægðarlaus höft eftirstríðsáranna, þegar ekki mátti flytja inn nagla án skriflegs leyfis yfirvalda og í lokin horft fram á betri tíð við valdatöku viðreisnarstjórnarinnar. Þeir félagar Þórarinn og Jón H. Sigurðsson hófu hins vegar störf þegar viðskiptafrelsi var að aukast, með aukinni samkeppni og smám saman óvægnara umhverfi, þar sem enginn er annars bróðir í leik og trygglyndi í viðskiptum á undir högg að sækja.

Blog image

Málningarverksmiðjan

Það hafði fljótlega orðið ljóst að framtíð málningarverksmiðjunnar gæti aldrei verið við Mýrargötuna. Nú kom það í hlut Þórarins og Jóns að huga að nýju svæði og lóð við Dugguvog varð fyrir valinu. Bygging málningarverksmiðjunnar hófst 1968 og eins og ávallt fóru menn varlega í framkvæmdirnar. Húsið var byggt í þremur áföngum, með það í huga að alltaf mætti selja eignina ef allt færi á versta veg. Þetta reyndust óþarfar áhyggjur, því lengst af hefur málningarverksmiðjan verið arðbær fjárfesting, enda frá upphafi í umsjón manna sem höfðu þjónustulund og vöruvöndun að leiðarljósi. Framleiðsla hófst í Dugguvoginum 1970 og jókst hröðum skrefum. Á síðasta áratug aldarinnar, sem við höfum nýverið kvatt, komst framleiðslan í eina milljón lítra og var verksmiðjan þá sú stærsta á landinu. Með auknum innflutningi, til viðbótar við þá framleiðslu sem er í landinu, hefur samkeppnin harðnað og krafan um hagkvæmni aukist. Stöðugt hefur verið unnið að endurbótum á verksmiðjunni.

Upphaflega var eingöngu framleidd botnmálning, en fljótlega bættist skipalakk og þakmálning við. Með tímanum þróaðist þessi þáttur í alhliða málningarframleiðslu og hefur fyrirtækið nú yfir að ráða fullkominni málningarverksmiðju, sem hefur verið í fararbroddi hvað varðar umhverfisvæn efni. Árið 1986 var tekin upp samvinna við málningarframleiðandann Alcro (síðar Alcro-Beckers) í Svíþjóð til þróunar á vatnsþynnanlegri akrýlmálningu. Samstarfið við Svía og þá ekki síður Dani var mjög árangursríkt hvað umhverfisvæn efni snertir, enda báðar þjóðirnar í fremstu röð umhverfissinna i heiminum. Slippfélagið í Reykjavík varð fyrst á Íslandi til að framleiða t.d. tinlausa botnmálningu fyrir skip og vatnsþynnanlega þakmálningu og mætti nefna margt fleira á þessu sviði. Slippfélagið hefur ætíð gætt þess að bjóða góða vöru, auk þess sem fagþekking í notkun efnanna hefur verið lykilinn að velgengni málningarvara Slippfélagsins í Reykjavík.

Hart barist og haldið velli

Hilmir Hilmisson var ráðinn til fyrirtæksins, sem aðstoðarmaður Þórarins Sveinssonar vorið 1985, en við skyndilegt fráfall Þórarins skömmu síðar varð Hilmir framkvæmdastjóri. Jón Hannes hafði látið af störfum 1980. Um þetta leyti má segja að blikur hafi verið á lofti í nokkurn tíma, varðandi skipasmíðaiðnaðinn. Þetta var þó aðeins forsmekkur að þeim erfiðleikum, sem síðar urðu. Það kom því í hlut Hilmis að halda sjó i Slippnum við Mýrargötuna ásamt Gunnari Bjarnasyni stjórnarformanni. Með mikilli endurskipulagningu fyrirtækisins tókst að ná áttum og smám saman rofaði til. Mikill vaxtarbroddur var í málningarframleiðslunni og reyndist Hilmir óragur við að reyna nýjar leiðir á því sviði. Eitt af hans fyrstu verkum var að auka við lagerhúsnæðið í Dugguvoginum og byggja skrifstofuhúsnæði ofan á viðbótina með það í huga að skrifstofuhald og söludeild yrðu undir sama þaki og varð þetta að veruleika vorið 1988.

Fyrsta bréfsefni Slippfélagsins ásamt vörumerki.

Fyrsta bréfsefni Slippfélagsins ásamt vörumerki.

Þann 1. janúar 1989 urðu grundvallarbreytingar á rekstri félagsins, þegar það seldi Stálsmiðjunni hf. í Reykjavík eignir sínar við vesturhöfnina. Þar á meðal allt sem til varð í upphafi, brautir og byggingar. Slippfélagið sleit þó aldrei tengslin við uppruna sinn og á erfiðleikatímum í skipasmíðaiðnaðinum tók fyrirtækið þátt í endurreisn Stálsmiðjunnar og var á tímabili stærsti hluthafinn í Stáltaki, sem varð til við samruna Stálsmiðjunnar í Reykjavík og Slippstöðvarinnar á Akureyri. Eftir þessar breytingar snerist starfsemi Slippfélagsins í Reykjavík nær eingöngu um verslunarrekstur, innflutning og framleiðslu á málningu og ýmsu því tengdu. Frá upphafi tengdist málningarframleiðslan fyrst og fremst útgerðarfyrirtækjum en með breyttum tímum voru tengslin ekki síður við málara og almenna neytendur, þótt útgerðin hafi skipað ennþá stóran sess meðal viðskiptavina.

Haustið 2007 urðu stórbreytingar á eignarhaldi félagsins, þegar bræðurnir Pétur Már og Ástgeir Finnssynir keyptu allt hlutafé Slippfélagsins. Þetta var ekki eina fyrirtækið sem skipti um eigendur á þessum árum, stuttu fyrir hrun. Í árslok 2009 lauk svo nær sextíu ára samstarfi Slippfélagsins og Hempels í Danmörk. Í framhaldinu, þ.e. í janúar 2010 varð svo önnur breyting á eignarhaldinu, þegar Málning hf. keypti reksturinn. Í dag fer öll framleiðsla fyrirtækisins fram í málningarverksmiðju Málningar í Kópavogi. Slippfélagið rekur í dag fimm verslanir, auk þess að vera með með endursöluaðila um allt land. Það heldur reglulega námskeið fyrir málara, auk þess að sækja kaupstefnur og námskeið víða um Evrópu, til að vera ávallt í fararbroddi hvað fagmennsku varðar. Það má því með sanni segja að Slippfélagið sé nýtt fyrirtæki á gömlum merg.

Gamalt reikningseyðublað Slippfélags Reykjavíkur

Gamalt reikningseyðublað Slippfélags Reykjavíkur

Lokaorð

Saga þessa hundrað ára gamla fyrirtækis hefur eins og ofanritað sýnir verið saga velgengni og erfiðleika hvað með öðru og í engu frábrugðin sögum annarra fyrirtækja. Það sem á hinn bóginn gerir sögu þess svo merkilega, er hlutur fyrirtækisins í atvinnusögu borgarinnar. Það varð til úr blöndu af brýnni þörf, bjartsýni og stórhug, rúmum tíu árum áður en Reykvíkingar hófu hafnargerð, eftir áratuga vangaveltur. Slippurinn var í raun fyrir opnu hafi og segir sig sjálft, að þrautseigju og þolgæði hefur þurft til að sjá við óblíðum náttúruöflum, sem alla tíð hafa haldið landanum við efnið.

Fyrirtækið var um og fyrir miðbik síðustu aldar einn stærsti atvinnurekandinn í borginni og miðað við höfðatölu ynnu fast að eitt þúsund manns í Slippnum á dag. Þó allur slíkur samanburður sé afstæður, er hann örugg vísbending um mikilvægi fyrirtækisins í borginni á sínum tíma.